Prenta |

Dagbók Þýskaland 2011

Dagur 10, kveðjustund

Klukkan sjö í morgun voru allir komnir á ról. Keppst var við að ganga frá og pakka niður. Sumir þurftu að setjast á töskurnar til að loka þeim og áhyggjur voru af yfirvigt.

Thyskaland dagur 10 03

Þriggja tíma rútuferð á flugvöllinn var fljót að líða og allir voru farnir að hlakka til að koma heim. Það tók nokkra stund að tékka inn allan farangurinn og hljóðfærin en áhyggjur af yfirvigt reyndust óþarfar.

Við kvöddum Einar, Ásgrím og Jón Arnar en þeir héldu til Munchen þar sem stórfjölskyldan ætlar að eyða næstu viku saman. Tinna fékk far með þeim feðgum en hún ætlar að vera hjá frænda sínum í Munchen í nokkra daga. Foreldrar Þórdísar og Olgeir og Eyþór bræður hennar sóttu hana til að halda í lengra ferðalag og Kristín Lísa og Friðrik (fararstjóri) pabbi hennar kvöddu okkur einnig. Þau ætla, ásamt bróður Kristínar, að dvelja í Frankfurt næstu daga.

Það er gaman að segja frá því að íslensk kona vatt sér að Jóni Steinari þar sem hann stóð í röðinni með fullan vagn af bassatrommum og brakketum og spurði um ferðir þessa fína hóps. Hún hafði orð á því hve börnin voru þæg og róleg og góð hvert við annað. Hún er kennari sjálf og veit hvað hún syngur. Þessi orð konunnar eru táknræn fyrir upplifun okkar fararstjóranna í ferðinni.

 Thyskaland dagur 10 02

Áður en við stigum um borð skemmtu krakkarnir flugfarþegum með söng. Það má því segja að þau hafi skemmt sér og öðrum fram á síðustu mínútu.

 

 Thyskaland dagur 10 01

MYNDBAND flugvollur

Rétt fyrir lendingu kom flugfreyjan til okkar og spurði hvort við værum með þennan kór! Hún hældi krökkunum fyrir fallega framkomu og einstaka kurteisi. Þetta fannst okkur gaman og gott að heyra.

Við fararstjórarnir og stjórnandi viljum þakka þessum frábæru krökkum fyrir ógleymanlega samveru og fyrir að vera hljómsveitinni til sóma hvar sem þau komu.

Einar, Sigga Roloff, Jón Steinar, Arndís, Hrafnhildur, Eiríka, Sigga Trausta, Friðrik, Stefanía, Hildur og Heiðdís