Prenta |

Samkomubann 16.3-12.4 2020-tilhögun starfs

Ritað .

Ágætu foreldrar og forsjáraðilar

Samkomubann

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum tók samkomubann gildi á landinu á miðnætti. Ljóst er að skipulag tónlistarnámsins verður með töluvert breyttum hætti vegna þessara takmarkana. Pósturinn minn frá því á föstudaginn síðasta er til að mynda úreltur.

Auglýsingu stjórnvalda um takmörkun skólastarfs er að finna hér: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=23a0ee4d-6537-11ea-945f-005056bc4d74.

Skipulagsdagur

Í dag, mánudaginn 16. mars, var skipulagsdagur í öllum tónlistarskólum og skólahljómsveitum þar sem starfsmenn og stjórnendur skipulögðu starfið næstu daga.

 

Tilhögun næstu daga

Hljóðfærakennslan heldur áfram en öll kennsla í hópum fellur niður, þar með talin tónfræði og hljómsveit og allir tónleikar og tónfunir. Starfsfólki skólahljómsveitarinnar er óheimilt að kenna annarsstaðar en í heimastöð, sem er á 2.hæð í Húsaskóla. Allri fara inn og út um sér inngang skólahljómsveitarinnar á gaflinum vestan megin í húsinu.

Gangurinn er læstur og engin samgangur milli grunnskólans og skólahljómsveitarinnar.

Hljóðfærakennarar þurfa svo upplýsingar frá ykkur foreldrum um skipulag námsins í grunnskólanum til að geta skipulagt hljóðfærakennsluna.

Hljóðfærakennararnir okkar munu vera í sambandi við forráðamenn og leita upplýsinga og leiða til að sinna kennslu og fylgja nemendum sínum eftir í samráði við þá.

Einnig er nauðsynlegt að láta vita eftir hefðbundnum leiðum ef nemandinn mætir ekki tónlistarnámið af einhverjum ástæðum.

Skert kennsla

Þar sem kennslan er skert munu kennarar vera aðgengilegir í síma eða fjarfundabúnaði. Hugsanlega verða settir upp símafundir milli nemenda og kennara, eða fjarkennsla með videofundum, allt eftir aðstæðum og þörf. Ef til fjarkennslu á videofundum kemur verður notaður búnaður sem kallast Teams. Það er hugbúnaður sem krakkarnir hafa aðgang að í gengum Office365 skólaaðgang sinn. Þar er aðgangur að MS word, MS excel og fleiru ásamt MS Teams. Þá þurfa þau að hafa skólaaðganginn sinn að skólanetfanginu sínu sem endar á … @rvkskolar.is

Því bið ég ykkur foreldra að kanna hjá krökkunum ykkar hvort þau séu með notendanafn og lykilorð að office.com

 

Ef einhver er mótfallin svona fjarkennslu  (ef til þess kemur) bið ég ykkur um að láta kennara barnsins vita um það.

 

Ef einhver ætlar ekki að mæta í hljóðfæratíma er viðkomandi sömuleiðis beðinn að láta mig vita með því að svara þessum pósti.

Hljóðfæraprófum og tónfræðiprófum er frestað um óákveðinn tíma.

Þrif og sóttvarnir

Skólabyggingarnar og önnur rými verða þrifin og sótthreinsuð eftir hvern dag og kennarar hreinsa viðkvæma fleti milli kennslustunda.

 

Foreldrar mega ekki koma inn í skólann.

Foreldrar sem skutla börnum og sækja eru beðin að vera stundvís svo börnin þurfi ekki að bíða mikið í almenna rýminu á ganginum okkar ásamt öðrum, heldur fara beint inn í tímann og beint úr tíma út í bíl.

 

Ég vona að okkur takist að búa til eitthvað fallegt saman á þessum sérstöku tímum. Vinnum þetta saman.

Kveðja Einar